Bóluefni gegn haustflensu á leiðinni

Sigurður Jökull

Von er á bóluefni gegn hinum venjubundnu haustflensum til landsins í byrjun næsta mánaðar og ættu bólusetningar að geta hafist fljótlega upp úr því.

Samkvæmt upplýsingum frá Þórólfi Guðnasyni, yfirlæknis á sóttvarnasviði Landlæknisembættisins, er bóluefnið aðeins seinna á ferð en venjulega sem stafi af óútskýrðum töfum í framleiðslunni hjá öllum bóluefnaframleiðendum. Spurður hvort framleiðslan hafi tafist vegna framleiðslu á bóluefni gegn svínaflensunni segir Þórólfur ekki telja svo vera. Bendir hann á að bóluefni sé viðkvæmt í framleiðslu og því þurfi ekki mikið til að tefja framleiðsluna.

Að sögn Þórólfs verða, líkt og síðustu þrjú ár, keyptir 60 þúsund skammtar og mælst til þess að áhættuhópar verði bólusettir. Í þeim hópi eru aldraðir og einstaklingar með undirliggjandi sjúkdóma. Einnig hafa mörg fyrirtæki boðið starfsmönnum sínum upp á bólusetningu. 

Samkvæmt upplýsingum frá Þórólfi er bólusett gegn þremur veirum í hinu árlega bóluefni, tveimur af A-stofni og einni af B-stofni. „Menn reyna að spá fyrir um það hvaða stofn muni ganga. Stundum hitta menn vel á það og stundum ekki alveg jafnvel. Þess vegna er bólusetningin misjafnlega virk,“ segir Þórólfur. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka