Dró forsetinn upp glansmynd?

Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við fréttamenn á Bessastöðum.
Ólafur Ragnar Grímsson ræðir við fréttamenn á Bessastöðum. mbl.is/Sæberg

Árni Finnsson, formaður Náttúruverndarsamtaka Íslands, setur spurningarmerki við þau ummæli Rajendra K. Pachauri, formanns Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, að betra sé að knýja álbræðslur hér með endurnýjanlegri orku en með jarðefnaeldsneyti annars staðar.

„Í fyrirlestri sínum í Háskóla Íslands á laugardaginn talaði Pachauri um að Ísland væri forysturíki í loftslagsmálum og þá hugsaði ég með mér að maðurinn gæti ekki vitað hvað við losum mikið á mann, eða næstum 17 tonn af koldíoxíði á ári, sem er með því mesta sem gerist.

Hér er ekki nein aðgerðaáætlun fyrir hendi um það hvernig við ætlum að draga úr losun og þar fram eftir götunum. Þannig að ef hann er að leita að leiðtogaríki er hann að leita í rangri skúffu."

Pachauri deildi sem kunnugt er friðarverðlaunum Nóbels með Al Gore fyrir framlag þeirra til loftslagsmála og telur Árni ýmislegt gagnrýnivert hafa komið fram í erindum beggja í Háskóla Íslands.

„Mér fannst þeir ekki sérlega upplýstir um stöðuna hér. Að halda að Ísland sé forysturíki stenst ekki skoðun. Forsetinn [Ólafur Ragnar Grímsson - innsk blm.] verður að draga fram kost og löst á stefnunni en ekki aðeins draga upp glansmynd."

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert