Ekki er búið að ráða nýjan ritstjóra Morgunblaðsins en Ólafur Þ. Stephensen lét af störfum ritstjóra á föstudag. Stjórn Árvakurs, útgáfufélags Morgunblaðsins, hefur verið boðuð til fundar í vikunni.
Óskar Magnússon, útgefandi Morgunblaðsins, sagði við mbl.is að vonir standi til þess að hægt verði að fá niðurstöðu í þessi mál og önnur skipulagsmál á nokkrum dögum.
Hávær orðrómur er um að Davíð Oddsson, fyrrverandi forsætisráðherra og seðlabankastjóri, verði ráðinn ritstjóri blaðsins. Fullyrt var á vefnum eyjunni.is nú undir kvöld að gengið verði frá ráðningu Davíðs á stjórnarfundi Árvakurs á miðvikudag. Óskar vildi hvorki tjá sig um þetta né önnur atriði þessu tengd.