Samkvæmt upplýsingum frá skrifstofu forseta Íslands hefur Ólafur RAgnar þegið boð Bills Clintons, fyrrum forseta Bandaríkjanna, að vera málflytjandi í pallborðsumræðum á heimsþingi Clinton stofnunarinnar, Clinton Global Initiative, þar sem fjallað verður um hvernig fjármálamarkaðir geta þjónað almannaheill á heimsvísu.
Einnig muni Ólafur Ragnar sækja aðra fundi þingsins og eiga viðræður við ýmsa þátttakendur þess. Heimsþingið var stofnað af Clinton þegar hann lét af embætti forseta Bandaríkjanna og sækja það þjóðarleiðtogar, vísindamenn, fjölmiðlafólk, fulltrúar almannasamtaka og áhrifamenn á fleiri sviðum.
Þá þáði Ólafur Ragnar boð Samkeppnisráðsins í Bandaríkjunum, U.S. Council on Competitiveness, um að vera meðal málflytjenda á leiðtogafundi um orkumál, National Energy Summit, sem haldinn er í Washington 23.-24. september. Þar verður fjallað um hvernig nýting hreinna og sjálfbærra orkugjafa getur aukið samkeppnishæfni þjóða. Meðal þátttakenda á leiðtogafundinum verða ýmsir forystumenn úr bandarískum þjóðmálum og viðskiptalífi.
Einnig hefur Ólafur Ragnar þegið boð Louise Blouin stofnunarinnar um að flytja lokaræðuna á alþjóðlegu málþingi um lærdómana sem draga má af fjármálakreppunni og hvernig hægt er að byggja upp hagsæld að nýju á traustan og öruggan hátt.
Ólafur Ragnar mun einnig eiga viðræður við ýmsa þjóðarleiðtoga, sérfræðinga og áhrifafólk í loftslagsmálum. Á morgun, þriðjudaginn mun hann sitja samræðufund með hópi bandarískra hagfræðinga til að fjalla um reynslu Íslendinga, hina alþjóðlegu fjármálakreppu og hvað þurfi að gera til að koma í veg fyrir að svo alvarleg áföll og kreppur endurtaki sig í framtíðinni. Samræðufundurinn er haldinn í boði Josephs Stiglitz, Nóbelsverðlaunahafa, sem nýverið heimsótti Ísland.
Þá mun Dorrit Moussaieff, forsetafrú, sækja málþing um einhverfu og aðstoð við einstaklinga og fjölskyldur. Málþingið er haldið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna og er forsetafrúin meðal skipuleggjenda þess. Hún mun einnig, í boði Rania Jórdaníudrottningar og Wendi Murdoch, sitja umræðukvöldverð um þúsaldarmarkmið Sameinuðu þjóðanna.