Krefur viðskiptaráðherra um svör

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins.
Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Ómar

Guðlaugur Þór Þórðarson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir að Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra verði að svara því hvort eðlilega hafi verið staðið að gjaldþrotaferli Landsbankans í Lúxemborg, og hvort hann hafi gætt hagsmuna íslenska ríkisins. Um verulegar fjárhæðir sé að ræða.

„Það eru mörg álitaefni og miklir hagsmunir í húfi. Þetta er búið að vera á borði ráðherrans núna í mjög langan tíma. Hann verður að svara því hvort að hann telji að hér hafi verið eðlilega að málum staðið,“ segir Guðlaugur Þór spurður um fund viðskiptanefndar Alþingis í morgun, þar sem rætt var um gjaldþrotaferill Landsbankans í Lúxemborg.

„Fulltrúi ráðuneytisins var á fundinum og ég reyndi að fá svör við þessum spurningum þar, en fékk ekki,“ segir hann en bætir við að fundurinn í dag hafi verið góður.  Nefndin mun koma aftur saman í næstu viku til að ræða málið frekar.

Guðlaugur Þór óskaði eftir fundinum í tilefni frétta um meint mistök við gjaldþrot Landsbankans í Lúxemborg. Fram kom í fréttum RÚV að hætta væri á að tjónið vegna meintra mistaka yrði allt að 700 milljónir evra, yfir 100 milljarðar króna. Aðspurður segist Guðlaugur Þór vera bundinn trúnaði varðandi upphæðirnar.

„Það liggur fyrir að það eru farnar misjafnar leiðir með bankana. Það er farin öðruvísi leið með Glitni og öðruvísi leið með Kaupþing. Og maður þarf að fá skýrari mynd af því hvort það var skynsamlegt að fara þessa leið, sem var farin með Landsbankann. Og sömuleiðis þarf maður að fá skýrari mynd af því hvernig aðkoma yfirvalda í Lúxemborg er, hvað þetta varðar. Það kom þarna fram að sá aðili sem var fenginn til að halda utan um bankann strax eftir hrun, sem einhverskonar fjárhaldsmaður bankans, hann var látinn fara. Sem er algjört einsdæmi,“ segir Guðlaugur Þór.

Fulltrúar frá skilanefnd Landsbankans og viðskiptaráðuneytisins mættu á fund nefndarinnar í morgun og munu mæta aftur í næstu viku.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert