Rúmlega helmingur landsmanna segist með naumindum eða ekki ná endum saman um hver mánaðamót og 3/4 eru hlynntir almennri niðurfærslu á verð- eða gengistryggðum lánum. Þá vilja rúm 80% afnema verðtryggingu samkvæmt niðurstöðum könnunar sem Capacent Gallup gerði fyrir Hagsmunasamtök heimilanna.
Könnunin var gerð meðal almennings hér á landi í lok sumars, og fór framkvæmdin fram á tímabilinu 25. ágúst – 10. september. Var markmið könnunarinnar m.a. að skoða áhrif efnahagsástandsins á fjárhag heimilanna og viðhorf fólks til aðgerða.
18% þátttakenda í könnuninni segjast safna skuldum, nota sparifé til að ná endum saman, séu gjaldþrota eða stefni í gjaldþrot. Um 37% svarenda segjast ná endum saman með naumindum en 45% sögðust geta safnað sparifé.
Úrtakið var 1678 manns á öllu landinu, 16 ára og eldri, handahófsvaldir úr þjóðskrá. Voru svarendur alls 864 talsins og svarhlutfall 52,4%.