500 milljónir fyrir Grensás ekki óyfirstíganlegt

Mynd frá Grensásdeildinni - fólkið á myndinni tengist ekki umfjöllunarefni …
Mynd frá Grensásdeildinni - fólkið á myndinni tengist ekki umfjöllunarefni fréttarinnar

 Söfnunarátakinu Á rás fyrir Grensás, sem hleypt var af stokkunum er Gunnlaugur Júlíusson hljóp af stað til Akureyrar nú í sumar, er ætlað að bæta úr langvarandi húsnæðisvanda Grensásdeildar, sem stofnuð var 1973. Frá þeim tíma hafa húsakynni deildarinnar ekki aukist, utan byggingar æfingasundlaugar. Landsmönnum hefur engu að síður fjölgað um 40% og þeim sem þurfa á endurhæfingu að halda hlutfallslega meira.

„Takmarkið er að safna 500 milljónum kr.,“ segir Orri Huginn Ágústsson, framkvæmdastjóri söfnunarátaksins Á rás fyrir Grensás, sem unnið er með Hollvinum Grensásdeildar. „Þetta er heljarinnar átak sem er hugsað til þriggja ára og upphæðin er ekki úr lausu lofti gripin.“ Stækka þurfi húsakynnin og laga – enda eru sjúklingar nú t.a.m. þjálfaðir í ósamþykktu kjallararými og jafnvel á göngum.

„Við höfum metið það svo að við þurfum 1.300 m² viðbyggingu og setjum okkur það markmið að reisa slíka byggingu. Hún á að hýsa þjálfunaraðstöðu Grensásdeildar og um leið mætti fjölga legurýmum í núverandi húsnæði.“

Á föstudaginn verður þriggja tíma skemmtidagskrá Á rás fyrir Grensás á dagskrá Ríkissjónvarpsins þar sem safnað er áheitum.

„500 milljónir kunna að hljóma sem óyfirstíganleg upphæð, en þegar hún er brotin niður þá eru þetta 1.667 kr. á hvern Íslending og það teljum við vel yfirstíganlegt,“ segir Orri Huginn.

Gert er ráð fyrir að hefjast handa við einfaldar framkvæmdir strax að skemmtidagskrá lokinni, sem og útfærslu á viðbyggingu sem verður reist um leið og nægir fjármunir hafa safnast.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert