„Það er ekkert skrítið að matsfyrirtækin komist að þeirri niðurstöðu að það sé enn mikil óvissa í þessum efnum,“ segir Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra um stöðumat erlendra aðila á íslensku atvinnulífi, sem hann er fullur bjartsýni um að muni sýna aðlögunarhæfni sína á næstunni.
„Ég hef hins vegar tröllatrú á því að íslenskt atvinnulíf muni sýna aðlögunarhæfni sína og kraft og koma mönnum á óvart í þeim efnum, að því tilskyldu að okkur gangi vel að ryðja þeim hindrunum úr vegi sem þar eru.
Þar nefni ég auðvitað sérstaklega úrvinnslu skuldavanda fyrirtækjanna og að þau komist á traustari grunn með sinn fjárhag þannig að þau geti farið að fjárfesta og hefja sókn og ráða fólk á nýjan leik, vonandi á næsta ári eða sem allra fyrst,“ segir Steingrímur, sem telur að þrátt fyrir allt sé staðan hér til dæmis betri en í Litháen, þar sem hrun fjármálamarkaðarins hefur leikið efnahaginn grátt.
„Þrátt fyrir allt er niðursveiflan hér minni ef við skoðum hana í samanburði ... Atvinnuleysi er hér að reynast heldur minna og samdráttur þjóðartekna heldur minni en spáð var og í þeim samanburði stöndum við ekki illa. En áfallið er að ýmsu öðru leyti er mjög stórt hér. Það lenda miklar byrðar á ríkissjóð vegna falls bankanna og tengdra atburða. Þannig að við höfum verk að vinna.“
Skattahækkanir eiga ekki að koma á óvart
Inntur eftir því hvort búið sé að útfæra fyrirhugaðar skattahækkanir segir Steingrímur þá vinnu enn ekki liggja fyrir. Þær fyrirætlanir eigi ekki að koma á óvart.
„Það er alveg ljóst að til þess að ná betri tökum á ríkisfjármálunum að þá verðum við að gera hvoru tveggja, að ráðast í miklar sparnaðaraðgerðir og afla meiri tekna... Við erum að fara yfir skattkerfið í heild sinni og meta úrræðin í ljósi aðstæðna og hvernig þetta kemur félagslega og efnahagslega best út.
Við reynum að sjálfsögðu að huga að því að verðlagsáhrif verði sem minnst og þá við erum þá líka að reyna að þróa okkar skattkerfi til framtíðar, til dæmis í því formi að taka í meira mæli upp umhverfis og auðlindatengd gjöld og annað í þeim dúr,“ segir Steingrímur sem telur það liggja „algerlega fyrir“ að beinir og óbeinir skattar muni hækka.
„Það liggur algerlega fyrir að verulegur hluti af aðlögunaraðgerðum verður í formi aukinnar tekjuöflunar, væntanlega eitthvað minna en helmingur þó þannig að þunginn færist núna í þessari umferð í meira mæli yfir á sparnaðar- og niðurskurðaraðgerðir heldur en var til dæmis síðastliðið vor.“