Þingflokkur framsóknarmanna hvetur ríkisstjórnina til að grípa tafarlaust til aðgerða til bjargar skuldsettum heimilum. Vandinn er mikill og eykst dag frá degi. Fjöldi fólks stendur frammi fyrir því að úrræði sem þeim hafa staðið til boða í greiðsluvanda hafa ekki reynst fullnægjandi. Þetta kemur fram í ályktun sem þingflokkurinn hefur sent frá sér.
„Framsóknarmenn kynntu efnahagstillögur í febrúar, þar sem lögð var til almenn skuldaleiðrétting í þágu heimila að lágmarki 20%. Þær hugmyndir hafa því miður, enn sem komið er, ekki hlotið hljómgrunn hjá ríkisstjórninni. Fjölmargir hafa tekið undir tillögur framsóknarmanna og þær raddir sem hvetja til leiðréttinga á skuldum heimilanna verða sífellt háværari. Allar raunhæfar tillögur ríkisstjórnarflokkanna sem miða að því að aðstoða fólk í greiðsluvandræðum og leiðrétta skuldastöðuna verða skoðaðar með jákvæðu hugarfari af hálfu framsóknarmanna. Nú þarf sátt um aðgerðir.
Þingflokkurinn skorar á stjórnvöld að leita samstöðu með öllum þeim sem lagt hafa málinu lið og benda sérstaklega í því samhengi á Hagsmunasamtök heimilanna og nýtilkominn átakshóp um skuldastöðu heimilanna," að því er segir í ályktun.