Lausn í Icesave í sjónmáli

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ræðir við fréttamenn fyrir þingflokksfundinn.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, ræðir við fréttamenn fyrir þingflokksfundinn. mbl.is/Kristinn

„Fulltrúar þjóðanna eru að tala saman og ég er að vona að við getum fengið einhverja niðurstöðu í málið fyrir lok þessarar viku,“ sagði Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra aðspurð um stöðu Icesave-málsins á stuttum blaðamannafundi á Hilton hótel Nordica fyrir stundu.

Innt eftir því hvers konar niðurstöðu hún vænti segir Jóhanna auðvitað unnið í samræmi við samþykktir Alþingis. Mikilvægt sé að niðurstaðan sé í samræmi við vilja þingsins.  

Jóhanna segir ekki hafa „hvarflað að neinum“ að setja bráðabirgðalög um Icesave en hún vísar jafnframt til föðurhúsanna orðrómi um að hún muni láta af embætti forsætisráðherra um áramótin. Hún hyggist sitja út kjörtímabilið eins og hún hafi boðað.

Hún útilokar hins vegar ekki að stokkað verði upp í ríkisstjórninni. Ljóst sé að bregða þurfi niðurskurðarhnífnum á loft og horfir ráðherrann þar meðal annars til stofnunar atvinnuvegaáðuneytis.  

Meðal þess sem verið sé að skoða sé hvort færa megi íbúðalán frá bönkunum til Íbúðalánasjóðs en aðspurð um tímasetningar í þeim efnum sagði hún erfitt að segja til um þær á þessari stundu.

„Það hefur þá kosti að þá er frekar hægt að fara í samræmdar aðgerðir fyrir alla aðila, hvort sem um er að ræða lán í bönkunum eða Íbúðalánasjóði,“ sagði Jóhanna.

Gripið til aðgerða fyrir áramót

Hins vegar væri alveg ljóst að gripið yrði til aðgerða til handa heimilunum fyrir áramót. Á því væri enginn vafi.

Forsætisráðherra boðar jafnframt frekari skattahækkanir og auknar álögur til að stoppa í það mikla gat sem hrunið hefur skilið eftir í fjárlögunum.

„Það er náttúrulega alveg ljóst að við þurfum að fara í verulegar breytingar að því er varðar fjárlögin sem við þurfum að ná bæði með niðurskurði og útgjöldum og tekjubreytingum. En hvernig skattahækkanir eða breytingar það verða, það liggur ekki enn þá fyrir. Við þurfum að fara í verulegan niðurskurð og hluta af því þurfum við að ná með skattahækkunum.“

Hvað snertir aðgerðir til handa heimilunum segir Jóhanna þær verða ræddar á þingsflokksfundi sem nú stendur yfir á Nordica.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka