Margt hangir á Icesave

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vonast eftir því að Icesave-málinu ljúki sem …
Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra vonast eftir því að Icesave-málinu ljúki sem fyrst.

„Við hefðum viljað vera búin að klára þetta mál fyrir löngu síðan vegna þess að það er svo margt sem að hangir á þessu máli; endurreisn bankanna og lánsfjáreinkunnir, sem er mikilvægt að séu ekki að lækka,“ segir Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra um nauðsyn þess að ljúka Icesave-málinu.

„Það hangir á þessu lánafyrirgreiðsla frá Norðurlöndunum, endurskoðun á áætlun okkar hjá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum. Þannig að það er ýmislegt sem að hangir á þessu. En hvort þetta eru nokkrar dagar núna til eða frá það skiptir ekki máli og bráðabirgðalög koma ekki til greina.“

Aðspurð hvort málið gæti ekki tekið nokkurn tíma eftir að þing kemur saman um mánaðamótin kvaðst Jóhanna vona að svo færi ekki.

„Ég vona að það sé sameiginlegur skilningur á því í þinginu, hjá stjórnarandstöðunni og stjórninni, að það þarf að ljúka þessu máli sem fyrst. Forsendan auðvitað fyrir því að við förum með það inn í þingið er sú að við höfum meirihluta fyrir því í þingflokkunum og ég hef fulla trú á því að við höfum hann.“  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka