Sér ekki flöt á bráðabirgðalögum

Gylfi Magnússon.
Gylfi Magnússon. mbl.is/Eggert

Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, segist ekki sjá neinn flöt á setningu bráðabirgðalaga til að mæta óskum Hollendinga og Breta og afgreiða þannig Icesave-málið. Hann segir ríkisstjórnina vera fara yfir hvort Alþingi þurfi að fjalla um málið að nýju eða hvort rúm fyrir óskir þjóðanna sé í lögunum um ríkisábyrgðina.

Gylfi var eini ráðherra ríkisstjórnarinnar sem gaf sér meira en augnablik til að ræða við fjölmiðla. Oddvitar stjórnarflokkanna héldu þegar á annan fund og aðrir ráðherrar þutu skjótt framhjá fjölmiðlamönnum og báru við miklu annríki.

Spurður um hvort dagsetning sé komin á lok Icesave-málsins sagðist Gylfi ekki geta sagt til um það, það verði hins vegar að gerast „alveg á næstunni". Hann sagði ekki mikið bera á milli en það þurfi að koma í ljós hvort nái í saman með þjóðunum. „Ég vona það og trúi því," sagði Gylfi.

Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur ekki enn sett efnahagsáætlun Íslands á dagskrá og óvíst hvenær málefni landsins verða tekin fyrir. Viðskiptaráðherrann telur það ekki verða í þessum mánuði enda mun væntanlegur ársfundur AGS tefja önnur mál. Hann telur líklegt að sjóðurinn taki Ísland á dagskrá í næsta mánuði.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert