Við sölu Haga, móðurfélags Hagkaupa, Bónuss, 10-11 o.fl. verslana, úr Baugi Group til eignarhaldsfélagsins 1998 ehf. fyrir 30 milljarða króna í júlí á síðasta ári fór aðeins hluti af söluverðinu, eða um 10 milljarðar króna, beint og milliliðalaust til Kaupþings þvert á það sem áður hefur verið talið.
Kaupin á Högum voru fjármögnuð með láni frá Kaupþingi. Voru 15 milljarðar af söluverðinu síðan nýttir til þess að kaupa hlutabréf í Baugi Group af eigendum félagsins, þ.e. Jóni Ásgeiri Jóhannessyni og tengdum aðilum eins og Gaumi, Gaumi Holding og félögum í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, sem greiddu síðan eigin skuldir við Kaupþing í staðinn. Eins og áður hefur komið fram voru 5 milljarðar notaðir til að greiða veðskuld Baugs við Glitni og 10 milljarðar til að greiða skuld Baugs við Kaupþing. Jón Ásgeir staðfesti þetta við blaðið.
Þetta leiddi til þess að Baugur Group eignaðist meira en 20 prósent í sjálfum sér, en lögum samkvæmt mega hlutafélög ekki eiga meira en 10 prósent af eigin bréfum. Eins og fram hefur komið hafa skiptastjórar þrotabús Baugs tekið ákvörðun um að láta reyna á riftun vegna sölunnar á Högum, en þau telja að ráðstöfun kaupverðs hafi falið í sér mismunun gagnvart öðrum kröfuhöfum Baugs.
Jón Ásgeir segir að ráðstöfun kaupverðsins hafi farið fram með þessum hætti í samvinnu við og að kröfu stærstu veðhafa Baugs Group, þ.e Kaupþings, Landsbankans og Glitnis. Hann segir að staðið hafi til að selja þau bréf sem Baugur eignaðist og viðræður hafi staðið yfir við erlenda fjárfesta stóran hluta ársins 2008.