Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir ríkisstjórn sína vinna í því að styrkja gengi krónunnar. Hún vill sjá frekari lækkun stýrivaxta. „Það er nauðsynlegt, meðal annars út af stöðugleikasáttmálanum,“ segir Jóhanna um nauðsyn þess að lækka vexti.
- Því hefur verið haldið fram að gengi krónunnar sé 30% veikara en forsendur eru til. Hvað er ríkisstjórn þín að gera til að styrkja gengi gjaldmiðilsins?
„Ég tók eftir þessu. Mér fannst þetta auðvitað mjög athyglivert sem þarna kom fram að sá vandi sem að við erum að glíma við er meðal annars út af þessu og það má rekja þetta til breytinga á gengi krónunnar. Það er mjög athyglisvert,“ sagði Jóhanna og vísaði til nýlegrar, aðsendrar greinar um málið í Morgunblaðinu.
„Við erum auðvitað að vinna að því með margvíslegum hætti í þeim aðgerðum sem að við erum búin að setja fram og eru á döfinni. Við erum að vinna að breytingum á höftunum þannig að við getum smám saman dregið okkur út úr höftunum.
Ég er að vonast til þess að sem fyrst að þá sjáum við stýrivaxtalækkanir. Það er nauðsynlegt, meðal annars út af stöðugleikasáttmálanum. Síðan er aðild að Evrópusambandinu mjög mikilvægur liður í því að vinna okkur út úr þessum erfiðleikum, meðal annars vegna krónunnar og gengisins.“
Aðgerða að vænta til handa heimilunum
- Hvenær geta heimili sem eru í þröngri stöðu og hyggjast fara í greiðsluverkfall vænt áþreifanlegra aðgerða af hálfu ríkisstjórnarinnar?
„Við erum einmitt að vinna með það núna þessa stundina að fara yfir þær hugmyndir og tillögur sem að liggja á borðunum og menn eru að vinna með. Ein af þeim hugmyndum er að flytja lán úr bönkunum yfir í Íbúðalánasjóð.
Hvort það verði að veruleika er ekki gott um að segja, en það eru margir góðir kostir í því, til dæmis þeir að við getum farið í samræmdar aðgerðir þegar og ef lánin fara yfir á Íbúðalánasjóð en að við þurfum ekki að treysta á að það séu samræmdar aðgerðir í bönkunum. En það er mjög mikilvægt að það sé gætt jafnræðis í því hjá lánastofnunum.“
- Áttu von á að þessar aðgerðir liggi fyrir fyrir áramót?
„Já. Ég á von á því að við getum farið sem fyrst í þessar aðgerðir og við höfum talað um að þetta verði eitt af þeim fyrstu málum sem verða lögð fyrir þingið. Sumt þarf breytingu á reglugerð. Sumt þarf lagabreytingu þannig að við erum að vinna með það mál.“