Kristileg stjórnmálasamtök leggja til að stofnaður verði kristinn stjórnmálaflokkur hér á landi. Samtökin, sem voru stofnuð snemma árs 2007, eru ekki stór, en stefnt er að því að bjóða fleirum til fylgis við þau.
Samtökin hafa haldið úti bloggsíðu þar sem fjallað er um íslenskt samfélag og kristna trú. Jón Valur Jensson, guðfræðingur, prófarkalesari og ættfræðingur, er einn síðuskrifara ásamt m.a. Guðmundi Pálssyni, sérfræðingi í heimilislækningum, Evu S. Einarsdóttur, hjúkrunarfræðingi og ljósmóður, og nýliðanum Guðsteini Hauki Barkarsyni.
Jón Valur segir í samtali við mbl.is að samtökin hafi fengið ágæt viðbrögð. „Þar að auki hafa margir lýst sig hlynnta þessum málsstað í gegnum tíðina,“ segir hann.
Spurður nánar um málstað samtakanna segir Jón Valur að stefnt sé að því að hér verði til kristið framboð sem leggi áherslu á kristna leiðsögn og siðferðisgildi í samfélagsmálum „sem hafa verið vanrækt mjög á seinni árum og áratugum,“ segir Jón Valur.
Þegar Jón Valur er spurður hvers vegna samtökin vilja stofna stjórnmálflokk segir hann: „Við sjáum að það er eiginlega ekki önnur leið í málinu. Það hefur verið reynt með öðrum kristnum mönnum í stjórnmálaflokkum að hafa áhrif á þá. Til þess að hafa bæði örvandi og hamlandi áhrif á málefni. Örvandi áhrif á góð málefni og hamlandi á það sem okkur sýnist stefna gegn kristnum siðagildum. Eða er mótað af skammsýni sem ekki er til góðs fyrir samfélagið.“
Hvað varðar sambærilega flokka í öðrum löndum segir Jón Valur að samtökin líti einna helst til kristilegu flokkanna á Norðurlöndum sem fyrirmyndar.