Umræður fóru fram um stöðu atvinnumála á fundi miðstjórnar ASÍ í dag og komu fram miklar áhyggjur af þeirri óvissu sem uppi er um orkunýtingu í Þingeyjarsýslu og fyrirhugað álver á Bakka, að sögn Gylfa Arnbjörnssonar, forseta ASÍ.
Gylfi segir að vissulega sé jákvætt að vinna er hafin um opinberar framkvæmdir og samstarf við lífeyrissjóði. „en að sama skapi er umræða um stóriðjumálin og orkumálin komin í talsverða óvissu. Í þeirri stöðu sem við erum í í dag er allur svona hringlandaháttur vondur.
Það kom fram mikill skilningur á áhyggjum félaga okkar í Þingeyjarsýslunum vegna upphlaupsins í kringum verkefnið á Bakka. Það er búið að leggja gríðarlega vinnu og fjármuni í þetta verkefni. Menn eru áhugasamir um að unnið verði áfram að þessu verkefni, en það er svo slegið út af borðinu með því að menn vilji fá eitthvað annað. Nú má vel vera að setja eigi það verkefni í þann búningi að vera með verkefni með ákvörðun stjórnvalda verði kleift að vinna á báðum vígstöðum. Gera þeim fyrirtækjum sem hafa áhuga á að koma þarna kleift að gera það, hvort sem menn eru að tala um gagnageymsluver, álver eða annað. En aðalatriðið er að vinna áfram að einhverjum raunhæfum lausnum fyrir þetta atvinnusvæði. Ekki að slá málið út af borðinu og segja bara eitthvað annað,“ segir Gylfi.
Á fundi miðstjórnar fór einnig fram umræða um mögulegar úrlausnir vegna greiðsluvanda heimilanna.