Hægt að lækka lyfjakostnað um 100 milljónir

Hægt er að draga úr beinþynningu með heilsusamlegu líferni, kalk- …
Hægt er að draga úr beinþynningu með heilsusamlegu líferni, kalk- og D-vítamínríku fæði mbl.is/Árni Sæberg

 Mun algengara er að dýrari lyf séu notuð í meðferðum við beinþynningu á Íslandi heldur en annars staðar á Norðurlöndunum. Kostnaður sjúkratrygginga vegna beinþynningarlyfja nam 167 milljónum króna á síðasta ári. Ef notkun lyfja, sem mælt er með og eru ódýrust, væri sambærileg hér á landi og í Noregi og Danmörku væri hægt að lækka lyfjakostnað um 100 milljónir kr. á ársgrundvelli.

Þetta kemur fram í  nýútgefnu fréttabréfi lyfjadeildar Sjúkratrygginga Íslands.

Alendrónsýra 70 mg einu sinni í viku er ráðlagt sem fyrsta val í
meðferð við beinþynningu. Erlendar hagkvæmniúttektir mæla
með alendrónsýru vikulega sem bestum kosti til að hámarka
ávinning að teknu tilliti til kostnaða. Þrátt fyrir það eru mun fleiri einstaklingar á Íslandi á öðrum lyfjum til meðferðar við beinþynningu. Um 1.300 einstaklingar eru á alendrónsýru lyfjum á meðan um 1.900 einstaklingar eru á öðrum lyfjum í þessum flokki.

Í samanburði við notkun þessara lyfja hér á landi, í Noregi og
Danmörku, kemur í ljós að Norðmenn nota alendrónsýru í um
96% tilvika, Danir í 89% tilvika en Íslendingar í um 50% tilvika, að því er fram kemur í fréttabréfi Sjúkratryggingar Íslands.


Beinþynning (osteoporosis) er sjúkdómur, sem veldur því, að beinin tapa kalki. Við það minnkar styrkur þeirra og þau verða mjög brothætt. Algengast er, að framhandleggsbein, lærleggsbein (lærleggsháls) og hryggjarliðsbolir brotni. Sjúkdómurinn er sjaldgæfur hjá einstaklingum undir 55 ára aldri, en tíðni hans eykst jafnt og þétt með aldrinum og er mun algengari hjá konum en körlum.

Sjá nánar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka