Íslensku bankarnir störfuðu samkvæmt reglum

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, segir í viðtali við Bloomberg fréttastofuna, að hvað sem segja megi um íslensku bankana hafi þeir starfað innan þeirra reglna, sem Evrópusambandið hefur sett um banka- og fjármálastarfsemi.  

Ólafur Ragnar er í Bandaríkjunum og situr þar m.a. ráðstefnur um orkumál, loftslagsmál og alþjóðamál. Þá ræddi hann við útvarpsstöðina Bloomberg News í morgunþætti stöðvarinnar og var einnig í beinni útsendingu sjónvarpsstöðvarinnar Bloomberg Television. Þá ræddi hann við sjónvarp- og netmiðilinn Forbes.

Fram kemur á heimasíðu forsetaembættisins, að í þessum þáttum var fjallað um stöðu Íslands og líkur á endurreisn hagkerfisins, tækifæri til nýrrar sóknar á grundvelli ríkra auðlinda landsins, samskiptin við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn og lærdóma sem Ísland, Bandaríkin og önnur lönd geta dregið af hinni alþjóðlegu fjármálakreppu. 

Í viðtali við Bloomberg sjónvarpsstöðina sagðist Ólafur Ragnar vera þess fullviss, að Ísland muni fljótlega ná sér upp úr þeirri fjármálalægð, sem það væri nú í.

„Tilgangur ferðar minnar til New York er meðal annars að miðla alþjóðasamfélaginu af því sem Ísland hefur lært með ærnum tilkostnaði," hefur Bloomberg eftir Ólafi.

Hann segir að fall íslensku viðskiptabankanna þriggja hafi m.a. stafað af því, að ekkert eftirlit var með fjármálastarfsemi yfir landamæri á Evrópska efnahagssvæðinu. „Þversögnin er sú, að við erum með sameiginlegan fjármálamarkað en við höfðum ekki sameiginlegt eftirlitskerfi," sagði hann. 

Frétt Bloomberg

Sjónvarpsviðtal við Ólaf Ragnar

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka