Vinnumálastofnun segir, að mistök af hálfu starfsmanna greiðslustofu stofnunarinnar á Skagaströnd hafi valdið því að greiðslu atvinnuleysisbóta til um 2400 bótaþega var frestað um mánaðamótin júní-júlí.
Forsagan er sú, að umboðsmaður Alþingis ritaði forstjóra Vinnumálastofnunar bréf í sumar og óskaði eftir upplýsingum og skýringum á nokkrum atriðum varðandi greiðslur atvinnuleysisbóta. Tilefni fyrirspurnarinnar var frétt þar sem fjallað var um aðstæður atvinnulausrar einstæðrar móður en síðustu greiðslu atvinnuleysisbóta til hennar hafði verið frestað með vísan til þess að hún hefði fengið greidd mæðralaun.
Umboðsmaður óskaði eftir staðfestingu Vinnumálastofnunar á efni fréttarinnar, hversu margir hefðu af þessum sökum ekki fengið atvinnuleysisbætur sínar greiddar á réttum tíma um mánaðamótin júní/júlí og hvenær þær hefðu að lokum verið greiddar. Jafnframt spurði umboðsmaður hvaða lagagrundvöllur og sjónarmið hefðu legið að baki frestunum, hvort stofnunin teldi þær vera stjórnvaldsákvarðanir og hvernig málsmeðferð þeirra hefði verið háttað.
Í svarbréfi Vinnumálastofnunar til umboðsmanns kom fram að gerð hefðu verið mistök af hálfu starfsmanna greiðslustofu Vinnumálastofnunar á Skagaströnd við samkeyrslu við staðgreiðslugrunn ríkisskattstjóra en stofnunin hefði yfirfarið verklag vegna samkeyrslunnar til þess að tryggja að óvissuástand sem skapaðist hjá hluta bótaþega um mánaðamótin júní/júlí kæmi ekki upp aftur.
Með tilliti til þessara skýringa taldi umboðsmaður ekki ástæðu til að aðhafast frekar vegna málsins.