Skattarnir gríðarlega íþyngjandi

Tilboð í olíuleit á Drekasvæðinu voru opnuð í Orkustofnun í …
Tilboð í olíuleit á Drekasvæðinu voru opnuð í Orkustofnun í maí. mbl.is/Árni

Of íþyngjandi skattar eru önnur af tveimur meginástæðum þess að Sagex Petroleum og Lindir Exploration hafa dregið til baka umsókn sína um sérleyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis á Drekasvæðinu. Gunnlaugur Jónsson, forstjóri Linda, segir skattana hér gríðarlega íþyngjandi.

„Meginástæðurnar eru tvær. Í fyrst lagi hefur komið í ljós að áhugi á svæðinu er minni en vonast var eftir. Það eru mikil samlegðaráhrif í þessum rekstri, menn þurfa að starfa mikið saman og við þurfum að fá fleiri inn á svæðið til þess að þetta gangi upp hjá okkur.

Jafnframt eru skattar mjög íþyngjandi á félög af þessu tagi á Íslandi. Við teljum að þetta áhugaleysi hafi leitt það í ljós. Skattarnir hefðu þurft að vera hvetjandi til að aðilar kæmu og sæktu um leyfi. Þess í stað eru þeir mjög letjandi. Við teljum alveg ljóst að það þurfi að fara fram breytingar á skattakerfinu hér áður en næsta umferð ferð fram. Þá höfum við mjög  mikinn áhuga á svæðinu því við höfum áhuga á að sækja um aftur og vonumst til þess að fleiri geri það líka. Við myndum þá jafnvel reyna að standa að því í samstarfi við aðra,“ segir Gunnlaugur.

Hann segir að skattarnir hér refsi sérstaklega félögum ef olíuverð er lágt og þeir séu mjög þungir ef tap er af rekstrinum. „Við gerðum okkur grein fyrir því m.a.s. þegar við sóttum um að skattarnir væru of þungir en við ímynduðum okkur að ef þetta gengi vel og aðrir myndu hugsanlega sækja um leyfi, þá væru ágætar líkur á að sköttunum yrði breytt,“ segir Gunnlaugur.  

Fjármálakreppan hefur líka áhrif að sögn hans en Drekasvæðið sé tæknilega mjög krefjandi, dýpi mikið, það er langt frá landi og mikil rekstrarleg áhætta í því fólgin að stunda þar olíuleit. 

Íslendingar geta bara haft stjórn á einum af þessum þáttum en það eru skattarnir. Gunnlaugur segir nauðsynlegt að bæta skattkerfið og gera það sambærilegt við það sem best gerist annarstaðar. „Þetta er töluvert verra hér en annarstaðar,“ segir hann.  

Vinnan mun nýtast 

Iðnaðarráðuneytið segir, að þar sem ljóst sé að ekki verði gefið út sérleyfi til rannsókna og vinnslu á Drekasvæðinu að þessu sinni muni stjórnvöld meta hvenær næsta útboð hefst og ákveða umgjörð þess í ljósi reynslunnar.

Á Drekasvæðinu eru nú þegar í gildi tvö leitarleyfi til allt að þriggja ára, annars vegar leyfi sem var veitt 5. júní sl. til bandaríska fyrirtækisins Ion GX Technology og hins vegar framlengdi CGGVeritas leyfið sem Wavefield Inseis var veitt 13. júní 2008, en CGGVeritast tók yfir starfsemi Wavefield Inseis á árinu. Heppnist mælingar muni gögnin verða afar góð viðbót við auðlindamat svæðisins og til kynningar á því.

Þá segir ráðuneytið, að sú vinna, sem lögð hafi verið í undirbúning og framkvæmd útboðsins, muni nýtast í framhaldinu enda búið að setja rammann um olíuleit við Ísland til framtíðar. Jafnframt megi benda á, að í kjölfar fyrsta útboðs Íslendinga hafi Norðmenn boðað rannsóknir sín megin á Jan Mayen hryggnum en þar eigi Ísland einnig hagsmuna að gæta samkvæmt Jan Mayen samningnum sem undirritaður var 1981.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert