„Ég var að fara yfir hugmyndir sem við höfum verið að vinna með. Það er ennþá dálítil vinna eftir í að vinna úr þeim en við vonumst til að standa við að vera tilbúin fyrir mánaðamót,“ sagði Árni Páll Árnason félagsmálaráðherra, eftir að hann kynnti tillögur um hugmyndir að lausn á skuldavanda heimilanna á sameiginlegum þingflokksfundi stjórnarflokkanna síðdegis í gær.
„Við viljum bæði létta greiðslubyrði fólks og svo auðvitað styrkja þessi sértæku úrræði og gera þau þjálli og auðveldari í notkun.“
Aðspurður hvort niðurfellingarleið komi til greina, að fella niður hluta íbúðarlánaskulda, sagði Árni Páll reynt að vinna á þessum tveimur forsendum, að mæta erfiðleikum í greiðslubyrði og síðan greiða úr vanda erfiðari skuldamálanna.
Hann útilokar ekki að lántakendum verði gert kleift að laga afborganir að greiðslugetu sinni.
Inntur eftir því hvort til greina kæmi að flytja íbúðalán frá bönkunum yfir til Íbúðalánasjóðs – þar með talið myntkörfulán – sagði Árni Páll verið að horfa á kosti og galla slíkrar yfirfærslu í heild. Allt kæmi til greina en ekkert væri ákveðið.