„Fólk hélt oft að það yrði auðsóttt að fá vinnu. En maður stekkur ekki inn í nýtt land mállaus og fær vinnu eins og smellt sé fingri,“ segir Þórir Jökull Þorsteinsson, sendiráðsprestur í Kaupmannahöfn. Hann segir að síðasti vetur hafi verið mörgum Íslendingum í Danmörku mjög erfiður og það ástand hafi staðið fram á sumar. Nú sé hins vegar að hægjast um. Fólk sé farið að átta sig á stöðunni og búið að sníða sér stakk eftir vexti.
„Í vetur voru það mest lífeyrisþegar, Íslendingar sem ætluðu sér að búa hér og lifa af lífeyri, örorkubótum eða öðru í íslenskum krónum, sem leituðu til okkar,“ segir Þórir. Margt af þessu fólki hafði ekki áunnið sér rétt til greiðslna úr félagslega kerfinu í Danmörku.
„Þetta fólk var því margt bágstatt, leitaði ekki bara til sendiráðsins og mín, heldur til Hjálpræðishersins og hinna og þessara líknarfélaga.“ Fólk var þá komið í vanskil með húsaleigu og rafmagn og var við það að missa ofan af sér þakið. „Það var þá stundum að leita til okkar í von um að einhvers staðar væri hægt að fá peninga, sem auðvitað var ekki hægt.“ Um jólin hafi þó verið hægt að hjálpa fólki, með aðstoð styrktarsjóðs á vegum íslenska safnaðarins. Hann segir eitthvað um að fólk hafi flutt heim til Íslands og þá jafnvel fengið fjárhagslega aðstoð við það, enda flutningskostnaður oft ærinn.
Í sumar var svo töluvert um að íslenskar fjölskyldur kæmu til að setjast að í Danmörku, en komust fljótt að því að það væri hægara sagt en gert. Sumt fólkið hafi ekki talað dönsku og jafnvel ekki ensku heldur. Í Danmörku er efnahagsástand ekki gott og atvinnuleysi töluvert. Íslendingarnir voru því væntanlega að keppa um störf við dönskumælandi fólk.
Þórir segist telja Noreg mun vænlegri kost en Danmörku núna, fyrir þá sem ætla að flytja utan. „Fólk þarf aðeins að þreifa á veruleikanum áður en það reynir þetta,“ segir Þórir. Hann veit um fjölskyldu sem kom til Danmerkur en þurfti frá að hverfa og endaði í Noregi. Þrjár aðrar fjölskyldur sem hann þekki til hafi verið að reyna að koma sér fyrir en gengið erfiðlega.