Haustslátrun er nú í fullum gangi í sláturhúsum landsins og eru húsin að langstærstum hluta mönnuð erlendum starfsmönnum, eins og verið hefur seinustu ár. Stóraukið atvinnuleysi hefur litlu breytt um þetta og skv. athugun Samtaka atvinnulífsins má áætla að um 500 erlendir starfsmenn hafi komið til landsins til starfa hér í sláturtíðinni.
„Við mönnum nánast eingöngu með útlendingum. Það er ekki mikið um nýráðningar Íslendinga,“ segir Gísli Garðarsson, sláturhússtjóri SAH afurða ehf. á Blönduósi. Í sláturtíðinni eru 95 starfsmenn þar við störf og eru erlendu starfsmennirnir um 70 talsins, flestir frá Póllandi og Nýja-Sjálandi. Mikill meirihluti erlendu starfsmannanna hefur starfað áður í sláturhúsinu.