Boðað hefur verið til aukaársfunda í Íslenska lífeyrissjóðnum, sem er í umsjá Landsbankans, dagana 28. september og 19. október. Á fyrri fundinum verða lagðar fram til afgreiðslu tillögur að breyttum samþykktum sjóðsins en þær miða að því að auka sjálfstæði sjóðsins frá því sem er nú.
Veigamesta breytingin er sú að sjóðfélagar fái mun meira vægi í stjórn sjóðsins en verið hefur. Lagt er til að sjóðfélagar velji fjóra af fimm stjórnarmönnum sjóðsins. Einn verði skipaður af bankaráði NBI hf. en skv. núverandi samþykktum skipar bankinn þrjá af fimm stjórnarmönnum.
Fjármálaráðuneytið þarf að staðfesta breytingar á samþykktum sjóðsins og því er boðað til annars aukaársfundar 19. október þar sem til stendur að kjósa nýja stjórn skv. þessum breytingum.
Verði þær samþykktar verða þrír stjórnarmenn kosnir til tveggja ára og tveir til eins árs.
Framboðum aðalmanna til stjórnar skal skila til stjórnar sjóðsins viku fyrir ársfund samkvæmt tillögunum.
Einnig er lagt til að framkvæmdastjóri sjóðsins verði starfsmaður sjóðsins og að greint verði á milli samtryggingardeildar og séreignadeildar í samþykktum sjóðsins.
Íslenski lífeyrissjóðurinn starfar í tveimur deildum, séreignadeild og samtryggingardeild. Fjöldi sjóðfélaga var 29.450 um seinustu áramót og stærð sjóðsins var þá 26,9 milljarðar kr.