Langur fundur var haldinn í Ráðherrabústaðnum síðdegis þar sem fulltrúar ríkisstjórnarinnar og aðila vinnumarkaðar fóru yfir framkvæmd stöðugleikasáttmálans, sem gerður var í sumar. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, segir ljóst að vaxtaákvörðun Seðlabankans á morgun marki straumhvörf.
Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, sagði við Sjónvarpið að engar ákvarðanir hafi verið teknar á fundinum en farið hafi verið ýtarlega yfir stöðuna í ríkisfjármálum og skuldir heimilanna sem og atvinnu- og orkumál.
Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, sagði við mbl.is að fundurinn hefði verið langur og umræðan hreinskiptin. Þar hefði verið farið yfir mörg mál, en ljóst sé að vaxtaákvörðun Seðlabankans á morgun marki straumhvörf því ekki sé vaxtaákvörðunardagur næst fyrr en 5. nóvember. Í stöðugleikasáttmálanum er miðað við að stýrivextir verði komnir í eins stafs tölu fyrir 1. nóvember en þeir eru nú 12%. Fjármálasérfræðingar bankanna gera flestir ráð fyrir að peningastefnunefnd Seðlabankans haldi vöxtum óbreyttum á morgun.
Gylfi segir, að þessi vaxtaákvörðun á morgun muni hafa mikil áhrif á framvinduna. Aðilar vinnumarkaðar hafi vissulega tíma út október en gangi það ekki upp verði ríkisstjórnin að svara því hvað annað sé hægt að gera til að stöðugleikasáttmálinn haldi.
Gylfi sagði, að menn hefðu rætt skuldavanda heimilanna á fundinum. Ríkisstjórnin hefði verið með vinnu í gangi um úrræði vegna þessa og Alþýðusambandið lagði fram tillögur um aðgerðir til að taka á bráðavanda á þessu sviði. Tillögurnar verða væntanlega kynntar opinberlega á morgun.