Brynja Halldórsdóttir sagði sig úr stjórn LV

Brynja Halldórsdóttir, fyrrverandi stjórnarmaður í Kaupþingi banka, hefur sagt sig úr stjórn Lífeyrissjóðs verslunarmanna af ótilgreindum ástæðum.

Viðbúið er að Lífeyrissjóður verslunarmanna tapi háum fjárhæðum á falli Kaupþings og tengdum fyrirtækjum. Af þeirri ástæðu vöknuðu spurningar um hæfi Brynju til setu í stjórn lífeyrissjóðsins. Samtök verslunar og þjónustu skipuðu Brynju í stjórn lífeyrissjóðsins og sagði formaður samtakanna í fréttum RÚV hinn 8. september sl. að Fjármálaeftirlitið hefði ekkert við skipan Brynju að athuga.

Samkvæmt upplýsingum frá FME er hæfi Brynju enn til athugunar hjá stofnuninni og í hefðbundnu ferli, en stofnunin úrskurðar um hæfi stjórnarmanna í fjármálafyrirtækjum og lífeyrissjóðum.

Brynja Halldórsdóttir staðfesti við Morgunblaðið í gær að hún væri ekki lengur í stjórn lífeyrissjóðsins en vildi ekki tjá sig um málið að öðru leyti.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert