„Háhitasvæðin eru einhver mestu gersemar Íslands. Það er vissulega hægt að nýta eitthvað af þeim, en að mínu mati er það vanhugsað ef menn ætla að fara að gjörnýta allan háhitann fyrir norðan í einu vettvangi,“, segir Andri Snær Magnason, rithöfundur.
„Allir vita að núverandi tækni í álbransanum gerir ráð fyrir
360 þúsund tonna álveri. Þegar Alcoa kynnir lítið álver eru þeir ekki að bera á borð allan sannleikann,“ segir Andri Snær. Bendir á að verði álverið stækkað um 50%, líkt og reynslan gefi tilefni til að ætla, þá krefjist það sjálfkrafa allrar orkunnar sem fyrir hendi sé á Norðurlandi þar á meðal að Skjálfandafljót verði virkjað.
Andri Snær bendir á að það sé tiltölulega einfalt að reikna út hvað virkjum vatnsafls geti skilað mikilli orku Hins vegar séu mun fleiri óvissuþættir þegar komi að virkjun jarðvarma. „Þá þarf að kosta til gríðarupphæðir bara til að vita hversu mikil orka er fyrir hendi,“ segir Andri Snær og veltir fyrir sér hver muni bera kostnaðinn af því að kanna hvort 600MW séu á svæðinu. „Orkan sem Alcoa þarf á að halda gæti dugað til að knýja Kaupmannahöfn,“ segir Andri Snær og bendir á að orkunýtingin á jólunum á höfuðborgarsvæðinu sé 200MW.
„Húsvíkingar gætu notað þriðjunginn, af þeirri orku sem nú er verið að tala um að nýta í álver á Bakka, á næstu tuttugu árum og byggt upp glæsileg fyrirtæki án þess að binda allar sínar vonir við aðeins einn málm,“ segir Andri Snær og segist jafnframt þeirrar skoðunar að langbest sé að nýta háhitasvæði hægt og í áföngum, en þau séu nýtt á annað borð.
„Ég veit ekki hvar orkufyrirtækin ætla að fá peninga til að bora upp á von og óvon þar til hægt er að komast að því hvort þau geti veitt Alcoa nægilega orku,“ segir Andri Snær og segir nýtingarhugmyndir manna byltingarkenndar. „Það er látið eins og þetta sé eðlilegt og sjálfsagt en þetta eru byltingarkenndar framkvæmdir. Þetta er á miklu stærri skala þegar kemur að jarðvarmanýtingu en nokkru sinni hefur verið gert á Íslandi áður,“ segir Andri Snær.
Segir hann ljóst að stór hópur íbúa á Norðurlandi séu á móti álveri á Bakka þó mest heyrist í þeim sem eru fylgjandi framkvæmdunum. „Þetta er ekki mál Húsvíkinga einna. Ef þetta bregst þá fellur kostnaðurinn á þjóðina alla,“ segir Andri Snær og tekur fram að hann skilji raunar ekki hvernig íslenska þjóðin ætli að fjármagna tvöföldun á raforkukerfi landsins, verði bæði reist álver á Bakka og í Helguvík, sem myndi í heild kosta um 400 milljarðar.