Sjálfviljugir fangar dúsa nú í fangaklefa í Kringlunni í Reykjavík. Fólkið tekur þátt í keppni sem miðar að því að fá sem fæst refsistig á þremur sólarhringum. Í morgun hætti einn keppandi eftir erfiða nótt í klefanum.
Klefinn var smíðaður sem leikmynd í sjónvarpsþáttaröðinni fangavaktinni sem stöð tvo mun hefja sýningar á innan tíðar. Fimmtán hundruð umsækjendur voru áfjáðir í að dúsa í þrjá sólarhringa í fangaklefanum en tíu urðu fyrir valinu, fimm karlmenn og fimm konur á aldrinum tuttugu til þrjátíu og níu.
Það verða lagðar þrautir fyrir keppendur og refsistigum er úthlutað fyrir salernisferðir og annan tíma sem þau kjósa að fara út úr klefanum.
Sigurvegarinn mun fá margvísleg verðlaun, flugmiða, farsíma, sjónvarp og sjónvarpsáskrift, gjafakort og fleira. Keppnin stendur til morguns.