Kristín Sigurðardóttir var nýfarin að vinna í álverinu á Reyðarfirði þegar hún lenti í bílslysi sl. haust og líf hennar umturnaðist. Að lokinni spítalavist tók við nokkurra vikna dvöl á legudeild Grensáss með strangri endurhæfingu sem m.a. beindist að því að þjálfa Kristínu í að umgangast fólk úr hjólastólnum sem hún var nú komin í. Henni fannst til að mynda athyglin sem stólnum fylgdi óþægileg í fyrstu.
Hún er nú steinhætt að kippa sér upp við athyglina og lætur hjólastólinn ekki stöðva sig. „Ég geri flest það sem ég vil,“ segir Kristín sem ekur um á bíl og er í þann mund að hefja vinnu á nýjan leik. Hún hefur verið ráðin til starfa á skrifstofu Ungmennafélags Íslands og hlakkar greinilega til.
Og hún kann starfsfólkinu á Grensási góðar þakkir. „Það lætur mann alveg vita að maður sé ekkert öðruvísi og hjálpar manni mikið við að komast aftur út í lífið,“ segir hún.