„Geri flest sem ég vil“

Kristín Sigurðardóttir
Kristín Sigurðardóttir mbl.is/Golli

Kristín Sigurðardóttir var nýfarin að vinna í álverinu á Reyðarfirði þegar hún lenti í bílslysi sl. haust og líf hennar umturnaðist. Að lokinni spítalavist tók við nokkurra vikna dvöl á legudeild Grensáss með strangri endurhæfingu sem m.a. beindist að því að þjálfa Kristínu í að umgangast fólk úr hjólastólnum sem hún var nú komin í. Henni fannst til að mynda athyglin sem stólnum fylgdi óþægileg í fyrstu.

Hún er nú steinhætt að kippa sér upp við athyglina og lætur hjólastólinn ekki stöðva sig. „Ég geri flest það sem ég vil,“ segir Kristín sem ekur um á bíl og er í þann mund að hefja vinnu á nýjan leik. Hún hefur verið ráðin til starfa á skrifstofu Ungmennafélags Íslands og hlakkar greinilega til.

Skíðaíþróttin skemmtileg

„Þetta er náttúrlega nýtt líf, en ég er líka búin að gera helling sem ég hafði ekki gert áður,“ segir Kristín. Þannig er hún dugleg að hitta vini sína og hefur hún farið á hestbak og fjórhjól. Einnig fór hún á skíði í fyrsta skipti eftir að hún lenti í slysinu. „Það var mjög gaman,“ segir Kristín sem stefnir á skíðaferð til Colorado í Bandaríkjunum nú í nóvembermánuði. „Skíðaíþróttin er ótrúlega skemmtileg, en dýr þannig að nú er ég á fullu að safna styrkjum.“

Og hún kann starfsfólkinu á Grensási góðar þakkir. „Það lætur mann alveg vita að maður sé ekkert öðruvísi og hjálpar manni mikið við að komast aftur út í lífið,“ segir hún.

Kristín á skíðum
Kristín á skíðum mbl.is
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

  • Engin mynd til af bloggara Jakob Falur Kristinsson: Slys
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert