Brýnt er að lög um greiðsluaðlögun verði framkvæmd þannig að mæta megi verulegum greiðsluvandræðum a.m.k. 10 þúsund fjölskyldna á næstu mánuðum. Er meðal annars nauðsynlegt að hægt verði að breyta skilmálum bæði fasteigna- og bifreiðaveðskulda þannig að gengistrygging sé felld niður, gjalddögum fjölgað og lánstími lengdur.
Þetta er meðal tillagna ASÍ vegna greiðsluvanda heimila um breytingar á lögum um greiðsluaðlögun, gjaldþrotaskipti o.fl. Þær voru samþykktar í miðstjórn í gær og voru því næst kynntar fyrir ríkisstjórninni síðdegis.
ASÍ leggur höfuðáherslu á bráðaaðgerðir til hjálpar þeim heimilum sem verst hafa orðið úti í efnahagsþrengingunum. Tillögurnar sem eru fjölmargar eru lagðar fram í frumvarpsformi. Þar er lagt til að greiðsluaðlögun taki jöfnum höndum á almennum skuldum og veðskuldum hvort heldur um er að ræða íbúðalán eða bifreiðalán. Þá stöðvist nauðungarsala þegar beiðni um heimild til greiðsluaðlögunar er lögð fram. Hægt sé að skera niður fasteignaveðskuldir þegar við staðfestingu greiðsluaðlögunar, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og að kröfuhafi sem ekki sættir sig við niðurskurð veðskulda umfram 100% veðþol eignar geti leyst eignina til sín gegn yfirtöku veðskuldbindinga eða m.ö.o. að skuldari skili lyklunum að eigninni. Skuldari og fjölskylda hans geti engu að síður haldið afnotum eignarinnar í allt að 12 mánuði gegn greiðslu hæfilegs endurgjalds í formi húsaleigu.
Þá er lagt til það úrræði að tryggt verði að ef eign sú sem veðskuldir eru skornar af er seld með hagnaði að raunvirði innan 5 ára frá afskrift skulda, skuli hagnaðinum skipt að jöfnu milli skuldara og kröfuhafa og einnig að greiðsluaðlögun megi taka upp á greiðsluaðlögunartíma ef skuldari efnast verulega á því tímabili