Ingibjörg R. Guðmundsdóttir, varaforseti ASÍ, segir stýrivaxtaákvörðun Seðlabanka Íslands vera mikil vonbrigði. „Áhyggjur okkar eru þær að þessi samningur [kjarasamningurinn] muni ekki halda. Við séum því að fara í kjarasamninga í vetur. Og það tel ég mjög alvarlegt við þessar aðstæður.“
Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað í morgun að halda stýrivöxtum bankans óbreyttum en þeir eru 12%.
Ingibjörg segir að ASÍ hafi miklar áhyggjur af þróun mála. „Þetta setur okkur í mikinn vanda, ekki síst í ljósi þess hvað allt annað hefur gengið hægt,“ segir hún í samtali við mbl.is.
Það eru liðnir þrír mánuðir síðan skrifað var undir stöðugleikasáttmálann og að sögn Ingibjargar er það slæmt hvað allt hefur gengið hægt.
„Við eigum ekki nema rétt rúmlega mánuð eftir þar til það verður tekin ákvörðun um kjarasamninginn. Og Samtök atvinnulífsins hafa lýst því yfir ítrekað að þau geti ekki við þessar aðstæður, ef að ekki komi til stýrivaxtalækkun og breytingar á þessari umgjörð okkar, framlengt þennan samning.“
Ingibjörg segir að það sé mjög áríðandi að það verði áþreifanlegar breytingar. ASÍ hafi miklar áhyggjur af atvinnuþróun og stöðu fyrirtækjanna í vetur.
Spurð um það hvort hún telji að stjórnvöld muni beita sér í málinu segir hún: „Auðvitað vonar maður það að það verði unnið mun hraðar í þessu, heldur en að hefur verið. Og að það náist lausn í Icesave og þeim verklegu framkvæmdum sem verið er að tala um. Mikil áhersla hefur verið á að losa um gjaldeyrishömlurnar.“