Rætt um einkasjúkrahús í Mosfellsbæ

Mosfellsbær.
Mosfellsbær.

Bæjaryfirvöld í Mosfellsbæ og fyrirtækið PrimaCare eiga í viðræðum um samvinnu varðandi byggingu einkasjúkrahúss og hótel. Fram kemur í yfirlýsingu frá bæjarráði Mosfellsbæjar að unnið hafi verið að stefnumótun þar sem fram kemur að Mosfellsbær verði yfirlýstur heilsubær.

Í yfirlýsingunni lýsir bæjarráðið yfir sérstakri ánægju yfir því að umhverfissjónarmið verði höfð að leiðarljósi við byggingu og rekstur sjúkrahússins og að áhersla verði lögð á sjálfbærni og samspil við náttúruna. 

Gert er ráð fyrir að hjá PrimaCare muni starfa rúmlega 600 manns og segir bæjarráðið að fyrirtæki af þeirri stærðargráðu myndi skipta miklu  máli fyrir Mosfellsbæ. Yrði það mikið gleðiefni ef forsvarsmenn PrimaCare kjósa að reisa sjúkrahúsið í Mosfellsbæ. 

Fram hefur komið, að PrimaCare stefni að opnun einkaspítala hér á landi árið 2012 þar sem sjúklingarnir kæmu allir frá útlöndum. Prima Care telji starfsemina geta skilað allt að 10 þúsund ferðamönnum til landsins árlega og upp undir 10 milljörðum kr. í gjaldeyristekjur. Unnið er að málinu í samvinnu við bandaríska fyrirtækið Shiboomi.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert