Rekstrarkostnaður hjá Vegagerðinni hefur minnkað um 301,3 milljónir, eða um 26,1%, fyrstu sjö mánuði ársins ef miðað er við fyrstu sjö mánuði ársins 2008.
G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, bendir þó á að inni í þessum tölum er ekki eingöngu sparnaður vegna þess að hætt hafi verið við einhverjar framkvæmdir: „Heldur hefur ýmsu verið frestað, tækjakaupum og viðhaldi hefur verið frestað í eitt ár eða lengur en á endanum kemur til þess að fara þarf í þann kostnað,“ segir hann. Í miðstöð Vegagerðarinnar (mestmegnis í Reykjavík) er kostnaðarminnkunin 41,7 millj. kr eða 8,5% frá fyrra ári, á skrifstofum svæðanna 46,9 millj. kr. eða 36,3%, hjá rekstrardeild Vegagerðarinnar 208,7 millj. kr. eða 32,8%.
Í skýrslu ríkisendurskoðanda um fjármálastjórnun ráðuneyta og skil rekstraráætlana frá því í júní er hvatt til þess að ráðuneyti og stofnanir sameinist um að meta væntanleg áhrif annars vegar 5% og hins vegar 10% nafnverðslækkunar fjárveitingar milli 2009 og 2010.