Utanríkisráðuneytið hefur sent Bændasamtökunum svar við fyrirspurn þeirra um að fá afhenta íslenska útgáfu spurningalista framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins.
Fram kemur á vef Bændasamtakanna, að ráðuneytið segi í svarbréfi að það hafi ekki í hyggju að leggja í þýðingu spurningalistans og beri m.a. fyrir sig kostnaði sem ráðuneytið áætlar að sé um 10 milljónir króna og verkið taki 2-3 mánuði að vinna. Með opinberri birtingu spurninganna telji ráðuneytið sig hafa gert almenningi kleift að kynna sér innihald þeirra með aðgengilegum hætti.
Í erindi Bændasamtakanna var einnig vakin athygli á því að ýmsa fyrirvara þyrfti að gera varðandi landbúnaðar- og byggðamál þegar spurningalista Evrópusambandsins væri svarað.
Bændasamtökin segja, að ein af ástæðum þess að samtökin óskuðu eftir því að fá spurningalistana sem vörðuðu landbúnað á íslensku hafi verið þær að með þeim hætti væri auðveldara að kynna þá félagsmönnum.