„Þetta var nú frekar augljóst frá upphafi og dómurinn ítrekar í raun bara að stjórnir í hlutafélögum eiga að stjórna félögunum en ekki einn framkvæmdastjóri,“ segir Magnús Soffaníasson. Hæstiréttur féllst í dag á kröfu Magnúsar um að umboðsveiting til framkvæmdastjóra fyrirtækisins Soffaníasar Cecilssonar hf. á Grundarfirði til að skuldbinda félagið, væri ógild.
Magnús segist munu fara yfir málið með lögfræðingum sínum og ekki sé ljóst hvert framhaldið verði. „En ég vil benda á það að ef menn brjóta af sér innan hlutafélaga og einhver vill stöðva það þá er þetta tíminn sem það tekur,“ segir Magnús.
Málið snýst um, að í mars árið 2007 ákvað framkvæmdastjóri fyrirtækisins, með samþykki meirihluta stjórnar félagsins, að taka þriggja milljarða króna lán hjá Landsbanka Íslands, og fjárfesta m.a. í hlutabréfum í Landsbankanum og í peningamarkaðssjóði Landsbankans. Lántakan var í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Eign fyrirtækisins í Landsbankanum varð síðan verðlaus við hrun bankans í fyrra en skuldirnar hafa hins vegar vaxið gríðarlega.
Magnús Soffaníasson, sem var í minnihluta innan félagsins, höfðaði mál og krafðist þess að ógilt yrði sú ákvörðun stjórnarinnar, að veita framkvæmdastjóra Soffaníasar Cecilssonar hf. umboð til að skuldbinda félagið. Jafnframt krafðist Magnús þess að umboðið verði ógilt með dómi. Héraðsdómur Vesturlands og síðan Hæstiréttur hafa nú fallist á þessa kröfu.
Fjölskyldufyrirtæki
Soffanías Cecilsson byggði fyrirtækið, sem kennt var við hann, upp frá unga aldri og rak í áratugi. Árið 1993 stofnaði hann og fjölskylda hans hlutfélagið Soffanías Cecilsson hf. og fyrirtækið hefur fram á þennan dag verið eitt af undirstöðufyrirtækjum atvinnulífsins í Grundarfirði. Soffanías lést árið 1999 og fljótlega eftir það tók tengdasonur hans, Sigurður Sigurbergsson, við sem framkvæmdastjóri félagsins.
Soffanías hafði gengið frá skiptingu fyrirtækisins milli barna sinna og eiginkonu upp úr miðjum síðasta áratug liðinnar aldar og komu rétt rúm 30% í hlut hvers þriggja barna hans. Rúnar Sigtryggur Magnússon, annar tengdasonur Soffaníasar, er stjórnarformaður Soffaníasar Cecilssonar hf. og þriðji stóri hluthafinn er Magnús Soffaníasson. Magnús var stjórnarformaður félagsins frá árinu 2000 til 2005 að Rúnar Sigtryggur tók við stjórnarformennskunni.