Aalborg Portland Íslandi ehf. hefur krafist rannsóknar Samkeppnistofnunar á því hvort ummæli Jóns Steindórs Valdimarssonar, framkvæmdastjóra Samtaka iðnaðarins, ályktun bæjarstjórnar Akraness, sveitarstjórnarmanna og Jóns Bjarnasonar, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, um málefni Sementsverksmiðjunnar hf. og Aalborg Portland Íslandi standist ákvæði samkeppnislaga.
Í ummælunum eru opinberir aðilar sem aðrir hvattir til þess velja íslenska framleiðslu frekar en innflutta. Í bréfi til Samkeppnisstofnunar segir að Jón Steindór hafi í viðtölum við fjölmiðla ítrekað brotið gegn 12. gr. samkeppnislaga sem leggur bann við því að samtök fyrirtækja, stjórnarmenn og aðrir sem samtökunum tengjast hvetji til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum, með því að hvetja ítrekað til þess að félagsmenn samtakanna, og í raun landsmenn allir, velji vöru frá einu tilteknu fyrirtæki fremur en öðru; þ.e. velji sement frá Sementsverksmiðjunni frekar en Aalborg Portland.
Enn alvarlegra telur þó Aalborg Portland vera að Jón Bjarnason ráðherra taki í grein á vefsíðu Skessuhorns undir orð Jóns Steindórs. Þá virðist Jón gagnrýna samkeppnislögin á Pressunni og segir það undarlegt að opinberir aðilar kaupi innflutta vöru meðan íslenskt fyrirtæki berjist í bökkum. Spyr Aalborg Portland í bréfinu hvort ráðherranum sé alvara með þessari gagnrýni sinni á samkeppnislögin og hvort vænta megi breytinga á þeim til samræmis við sjónarmið hans.