Fullyrt er í bloggfærslu á vefnum blog.is, að Indriði H. Þorláksson, einn samninganefndarmanna Íslands í Icesave-málinu, hafi skrifað minnisblað um viðræður við breska og hollenska embættismenn þar sem hann var í flugvél á leið til Íslands að kvöldi 2. september. Þeir sem sátu nálægt Indriða eða gengu framhjá sæti hans hafi getað lesið minnisblaðið og þar hafi m.a. komið fram að viðsemjendurnir myndu aldrei sætta sig við að heildarskuldin vegna Icesave yrði ekki greidd.
„Þeim sýndist á þessu skjali ekki vera nokkur vafi á því að fulltrúar samninganefnda Breta og Hollendinga samþykktu ekki fyrirvara alþingis! Skjalið sem lá þarna fyrir fólki eins og dagblað á kaffihúsi voru svör Breta og Hollendinga við fyrirvörum alþingis!" segir m.a. í bloggfærslunni, sem Bergur Ólafsson, meistaranemi í stjórnun við viðskiptaháskólann BI í Ósló, skrifar.
Bergur segir, að farþegarnir hafi síðan orðið enn meira undrandi þegar ráðherrar og embættismenn fullyrtu næstu vikurnar að engin viðbrögð hefðu borist frá Bretum og Hollendingum.
Forsætisráðuneytið sendi frá sér fréttatilkynningu 4. september þar sem sagði, að góður andi hafi verið í viðræðum íslenskra, breskra og hollenskra embættismanna á óformlegum fundi í Haag tveimur dögum fyrr um nýsamþykkta fyrirvara Alþingis við Icesave-samninginn. Sama dag átti fjárlaganefnd Alþingis fund með íslensku embættismönnunum. Eftir fundinn kom fram hjá formanni fjárlaganefndar, að engin formleg viðbrögð væru komin frá Bretum og Hollendingum en málið væri ennþá á embættismannastigi og í eðlilegum farvegi.
17. september var á ný haldinn fundur í fjárlaganefnd en þá höfðu borist hugmyndir frá Bretum og Hollendum vegna fyrirvarana við Icesave-ábyrgðina. Trúnaður var sagður ríkja um þær hugmyndir en fram hefur komið, að Bretar og Hollendingar leggjast þeim fyrirvara Íslendinga, að ríkisábyrgð á endurgreiðslum þess fjár sem tapaðist í bankahruninu renni út í júní 2024 fari svo að eitthvað verði ógreitt af láninu á þeim tíma.