Tvö innbrot voru framin upp úr miðnætti á höfuðborgarsvæðinu, annars vegar var um að ræða fyrirtæki í Hafnarfirði og hins vegar í Austurborginni. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni var litlu stolið í Hafnarfirðinum en í Austurborginni var stolið talsverðum verðmætum í ljósmyndavörum s.s. myndavélum, linsum og fylgihlutum.
Í báðum tilvikum voru það öryggisverðir sem tilkynntu lögreglunni um innbrotin þegar öryggiskerfi fyrirtækjanna fóru í gang. Að sögn varðstjóra hefur enginn enn verið handtekinn vegna málanna, en myndir náðust af þjófunum á filmu öryggismyndvéla í fyrirtækinu í Austurborginni og er verið að vinna úr þeim myndum.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nótt sem leið eftirlit með opnunartíma skemmtistaða í miðbænum en nokkuð var af fólki í bænum fram eftir kvöldi. Þrír skemmtistaðir voru áminntir um lokunartíma um tvöleytið í nótt, en óheimilt er að hafa opið lengur en til kl. 01 á virkum kvöldum.
Að öðru leiti var umferð lítil og róleg.