Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Vesturlands um að ákvörðun stjórnar Soffaníasar Cecilssonar hf. á Grundarfirði, um að veita framkvæmdastjóra félagsins umboð til að skuldbinda félagið, væri ógilt.
Málið snýst um, að í mars árið 2007 ákvað framkvæmdastjóri fyrirtækisins, með samþykki meirihluta stjórnar félagsins, að taka þriggja milljarða króna lán hjá Landsbanka Íslands, og fjárfesta m.a. í hlutabréfum í Landsbankanum og í peningamarkaðssjóði Landsbankans. Lántakan var í japönskum jenum og svissneskum frönkum. Eign fyrirtækisins í Landsbankanum varð síðan verðlaus við hrun bankans í fyrra en skuldirnar hafa hins vegar vaxið gríðarlega.
Magnús Soffaníasson, sem var í minnihluta innan félagsins, höfðaði mál og krafðist þess að ógilt yrði sú ákvörðun stjórnarinnar, að veita framkvæmdastjóra stefnda umboð til að skuldbinda félagið. Jafnframt krafðist Magnús þess að umboðið verði ógilt með dómi.
Héraðsdómur Vesturlands og síðan Hæstiréttur hafa nú fallist á þessa kröfu. Í dómi Hæstaréttar segir m.a. að stjórn hlutafélags geti falið framkvæmdastjóra að annast daglegan rekstur og veitt honum umboð til að rita firma félagsins. Sú heimild nái þó ekki til ráðstafana sem séu „óvenjulegar eða mikils háttar“. Hvað í því felist taki mið af tilgangi félags, umfangi og efnahagsstöðu og verði það mat ekki falið framkvæmdastjóra. Geti stjórn hlutafélags samkvæmt ófrávíkjanlegum ákvæðum laganna ekki framselt vald sitt til að taka ákvarðanir um hvers kyns ótilgreindar ráðstafanir án tillits til þess hvort þær séu óvenjulegar eða mikils háttar og breyti þar engu þótt hluthafafundur samþykki slíkt framsal. Af þessum sökum samræmist umboðið ekki ákvæðum laga um hlutafélög.
Fjölskyldufyrirtæki
Soffanías Cecilsson byggði fyrirtækið, sem kennt var við hann, upp frá unga aldri og rak í áratugi. Árið 1993 stofnaði hann og fjölskylda hans hlutfélagið Soffanías Cecilsson hf. og fyrirtækið hefur fram á þennan dag verið eitt af undirstöðufyrirtækjum atvinnulífsins í Grundarfirði. Soffanías lést árið 1999 og fljótlega eftir það tók tengdasonur hans, Sigurður Sigurbergsson, við sem framkvæmdastjóri félagsins.
Soffanías hafði gengið frá skiptingu fyrirtækisins milli barna sinna og eiginkonu upp úr miðjum síðasta áratug liðinnar aldar og komu rétt rúm 30% í hlut hvers þriggja barna hans. Rúnar Sigtryggur Magnússon, annar tengdasonur Soffaníasar, er stjórnarformaður Soffaníasar Cecilssonar hf. og þriðji stóri hluthafinn er Magnús Soffaníasson. Magnús var stjórnarformaður félagsins frá árinu 2000 til 2005 að Rúnar Sigtryggur tók við stjórnarformennskunni.