9% verðmunur á Bónus og Krónunni

mbl.is

Allt að 10% verðmunur reyndist á matvörukörfu sem verðlagseftirlit ASÍ kannaði verð í fjórum lágvöruverðverslunum víðsvegar um land sl. þriðjudag. Vörukarfan sem innheldur 38 vörur var ódýrust í Bónus þar sem hún kostaði kr. 14.267 en dýrust í Krónunni kr. 15.595, verðmunurinn er 1.328 krónur eða 9%.

Af einstökum liðum í vörukörfunni var minnstur verðmunur á forverðmerktum osti og áleggi sem bendir til þess að forverðmerkingar birgja á matvörum takmarki verðsamkeppni milli matvöruverslana, eins og verðlagseftirlitið hefur marg oft bent á, að því er fram kemur á vef ASÍ.

Verulegur verðmunur á hreinlætisvörum

Verðmunur á mjólkurvörum var frá því að vera enginn á nýmjólk og rjóma upp í 8% á kókómjólk. Verulegur verðmunur var á hreinlætisvörum eða frá 21% - 121 %. Colgate Total tannkrem var dýrast 5.720 kr/l í Krónunni en ódýrast 2.590 kr/l í Bónus, verðmunurinn er 121% eða 3.130 kr/l. Head & Shoulders classic clean sjampó kostaði 1.703 kr / l í Bónus þar sem það var ódýrast en 3.175 kr / l í Krónunni þar sem það var dýrast. Verðmunurinn er 87% eða 2.472 kr/l. Pampers Max 7–18 kg bleyjur kostuðu 45 kr. stk. í Nettó þar sem þær voru dýrastar en 32 kr. stk. í Bónus, þar sem þær voru ódýrastar.

Einnig var gríðarlegur verðmunur á grænmeti, eins og tómötum (71%) og grænni papriku (27%) í könnuninni, að því er fram á vef ASÍ.

Sjá nánar hér

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert