Alþingi hefur í vetur og sumar farið í rekstrarhagræðingu og leitað allra leiða til að spara, að sögn Helga Bernódussonar skrifstofustjóra. Eitt af því sem var ákveðið var að Alþingi sem slíkt hætti að greiða heimsend dagblöð fyrir alþingismenn.
Helgi segir, að áður hafi verið búið að ganga frá þessu gagnvart DV og nú hafi röðin verið komin að Morgunblaðinu. Helgi segir að áskrift að blöðunum fari yfir á þingmennina og þeir ákveði svo sjálfir hvaða blöðum þeir verða áskrifendur að. Sama fyrirkomulag hefur verið tekið upp gagnvart héraðsfréttablöðum.
Á vefmiðlinum Pressunni.is í dag segir, að ráðning Davíðs Oddssonar í starf ritstjóra Morgunblaðsins valdi töluverðri pólitískri ólgu. Hafi forsætisnefnd Alþingis ákveðið að hætta að greiða fyrir áskrift þingmanna að blaðinu og segja því upp frá og með næstu mánaðarmótum.
Helgi segir hins vegar að þetta hafi verið ákveðið fyir löngu og hafi ekkert með atburði síðustu daga að gera.