Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, segist muna nota þá reynslu sem hann býr yfir frá fyrri störfum í starfi sínu sem ritstjóri en að sjálfsögðu muni hann gæta trúnaðar í þeim tilvikum sem upplýsingar sem hann búi yfir eru bundnar trúnaði. Hann segir að Morgunblaðinu verði ekki í ritstjórn hans beint gegn ríkisstjórninni en því beri hins vegar að upplýsa áskrifendur blaðsins. Þetta kom fram í viðtali Sölva Tryggvasonar við Davíð á SkjáEinum í kvöld.
Aðspurður um hvort hann muni nota upplýsingar eins og hann hafi gefið í skyn að hann hefði, til að mynda samtal við bankastjóra Englandsbanka, í starfi sínu sem ritstjóri segir Davíð að þær upplýsingar hafi verið kynntar í trúnaði fyrir utanríkismálanefnd. Það hafi hins vegar verið allt of seint. „Ég tel að þær hafi verið þýðingamiklar og það má vel vera eftir að rannsóknarnefnd Alþingis hefur lokið störfum að þá verði heimilt að birta slíkar upplýsingar."
Hann segist telja að þetta séu upplýsingar sem almenningur eigi að hafa en það sé ekki í hans verkahring að birta þær enda hafi hann fengið þær í sínu fyrra starfi. Davíð segist hafa verið boðaður í tvígang til rannsóknarnefndar Alþingis og setið þar fyrir svörum. Hvort skiptið hafi tekið sjö klukkustundir þannig að það hafi verið ansi mikil törn.
Sölvi spurði Davíð í þættinum um hvort hann myndi fara aftur í stjórnmálin. Að sögn Davíðs fékk hann mikla hvatningu frá fólkinu í landinu til að fara aftur í stjórnmálin. Það hafi að sjálfsögðu snert hann og hann hlustað með athygli á þessar raddir. Hann svaraði hins vegar ekki spurningu Sölva afdráttarlaust um hvort stjórnmálaafskiptum hans væri lokið.
Davíð segist muna gæta þess að aðrir á ritstjórn Morgunblaðsins komi að umfjöllun um mál sem tengjast honum. Hann segir að ekkert sé athugavert við það að hann fjalli um að ekkert sé að gerast hér á Íslandi líkt og staðan sé núna.
Að sögn Davíðs mun þess væntanlega gæta í Morgunblaðinu að hann sé á móti Evrópusambandsaðild og andsnúinn Icesave-samkomulaginu.
Davíð Oddsson, ritstjóri Morgunblaðsins, segir mikinn mun vera á því hvernig farið var með Morgunblaðið og 365 miðla hjá bönkunum. Í tilfelli Morgunblaðsins hafi eigendur misst allt sitt á meðan banki 365 afskrifaði háar fjárhæðir. Eigendur Morgunblaðsins hafi ekki fengið neitt afskrifað heldur hafi þeir þurft að fara frá blaðinu.
„Síðan var blaðið bara boðið út þar sem bankinn taldi það heppilegast fyrir sig að reyna að fá einhverja menn inn til að gefa blaðið út. Þannig að eitthvað fengist upp í skuldir blaðsins. Þannig að sá áróður um að þessir eigendur hafi fengið einhverjar skuldir afskrifaðar er algjör misskilningur," segir Davíð.
Annar ríkisbanki kom að öðrum fjölmiðlum og afskrifaði skuldir eigendanna sem hélt áfram eignarhaldinu. Það er miklu undarlegri hlutur, segir Davíð og vísar þar til 365 miðla.
Hann segir að þær uppsagnir sem Morgunblaðið hafi þurft að fara í sýni
hve alvarleg staða sé á fjölmiðlunum. Enda sé Morgunblaðið þekkt fyrir
hve tryggt það er við starfsmenn sína.
Hann segist treysta Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, fyrrverandi formanni Samfylkingarinnar til þess að ritstýra Fréttablaðinu á hlutlausan hátt. „Ég myndi ekki vantreysta henni til þess. Ég held að hún sé gáfuð og ágæt kona."
Hægt er að horfa á þáttinn með því að smella hér.