Fjandsamleg áætlun AGS

Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins.
Vilhjálmur Egilsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins. mbl.is/Árni Sæberg

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA, sagði á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva á Grand Hóteli í dag að áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins fyrir Ísland hefði frá upphafi verið „markaðsfjandsamlegt prógramm“ og væri sennilega versta áætlun sjóðsins frá upphafi. 

Vilhjálmur sagði að strax hefði verið gengið út frá því að ríkið myndi eiga bankana. „Það voru lengi vel mjög slæm samskipti við erlenda kröfuhafa bankanna. Sem betur fer hefur tekist að vinda ofan af þessu,“ sagði hann.

Vilhjálmur gangrýndi gjaldeyrishöftin harðlega.„Ekki einu sinni Tyrkir setja gjaldeyrishöft. Líran fell, en af því að þeir settu ekki gjaldeyrishöft þá er líran að koma til baka, hún er að ná sér,“ sagði Vilhjálmur, sem sagðist nýkominn frá Tyrklandi. „Það kemur enginn sjálfviljugur og skiptir erlendum gjaldeyri í krónur, jafnvel þótt [bankarnir] séu tilbúnir að borga þokkalega vexti.“

Aldrei tekist á fjögur þúsund árum

„Gjaldeyrishöftin hækka ekki gengið, þau virka nákvæmlega með sambærilegum hætti eins og verðlagshöft virka ekki á verðbólgu. Verðlagshöft hafa verið reynd í fjögur þúsund ár og þau hafa aldrei virkað. Það sama gildir um gjaldeyrishöft. Jafnvel viðskiptaráðherrann sjálfur hefur kennt þetta,“ sagði Vilhjálmur og vísaði til þess að Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, var áður dósent við viðskipta- og hagfræðideild HÍ.

Vilhjálmur sagðist sannfærður um að gengi krónunnar væri hærra í dag ef engin höft hefðu verið sett á og krónan hefði verið látin fljóta. Hann sagði að skapa þyrfti ástand sem gerði erlendum fjárfestum kleift að skipta sjálfviljugir erlendum gjaldeyri.

„Gjaldeyrishöftin eru í raun skilti sem á stendur: Krónan er ekki í lagi. Þetta gengur alls ekki upp,“ sagði Vilhjálmur.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert