Fjölmiðlastofa hafi eftirlit

Katrín Jakobsdóttir.
Katrín Jakobsdóttir. mbl.is/Jakob Fann

Katrín Jakobsdóttir, menntamálaráðherra, mun á næstunni kynna frumvarp til laga um fjölmiðla. Verður frumvarpið sett á vef menntamálaráðuneytisins áður en það fer í þinglega meðferð. Að sögn Katrínar er í frumvarpinu gert ráð fyrir stofnun fjölmiðlastofu sem meðal annars er ætlað að sinna eftirliti með fjölmiðlum.

Nú eru í gildi prent- og útvarpslög en ekki eru til ein lög sem ná yfir alla fjölmiðlaflóruna, að sögn Katrínar. Þau ná einnig yfir nýja miðla, svo sem netmiðla, sem ekki voru til þegar eldri lög voru sett.

Að sögn Katrínar er í frumvarpinu að finna ákvæði sem lýtur að ritstjórnarlegu sjálfstæði fjölmiðla og að gagnsæi ríki um eignarhald á fjölmiðlum. Ekki liggur nákvæmlega fyrir hvenær frumvarpið verður kynnt en það verður öðru hvoru megin við mánaðamót.

Eins og áður sagði þá gefst fólki kostur að kynna sér frumvarpið á netinu áður en það verður rætt á Alþingi. Það verður sérstaklega kynnt fyrir þingflokkum og hagsmunaaðilum, svo sem fjölmiðlunum sjálfum, og óskað eftir áliti frá þeim.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka