Fundnir heilir á húfi

mbl.is/Brynjar Gauti

Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar á Höfuðborgarsvæðinu, Akranesi og í Borgarnesi hófu upp úr miðnætti að leita að tveimur mönnum á þrítugsaldri sem fóru frá bíl sínum við Hvalvatn inn af botni Hvalfjarðar.

Að sögn Frímanns Andréssonar, sem situr í svæðisstjórn á höfuðborgarsvæðinu, fannst annar mannanna sunnan við Botnsána um  kl. 04 í nótt en hinn ekki fyrr en kl. 07 í morgun. Segir hann báða menn kalda og hrakta en heila á húfi.

„Þeir festu bílinn sinn og fóru gangandi af stað. Annað slagið voru þeir í símasambandi við leitarstjórn en gátu ekki staðsett sig. Um miðja nótt urðu mennirnir tveir viðskila. Þeir fundust síðan með um eins til tveggja kílómetra millibili,“ segir Frímann og bendir á að leitarsvæðið sé afar erfitt yfirferðar þar sem mikið sé um gil og skorninga auk þess sem þvera þurfi ár.

Hátt í 80 manns tóku þátt í leitinni í nótt. Ætlunin var að kalla út þyrlu Landhelgisgæslunnar nú í morgunsárið til að aðstoða við leitina, en til þess kom ekki þar sem mennirnir fundust áður. 

Frímann vill brýna það fyrir mönnum að þeir haldi ávallt kyrru fyrir í bílnum  ef þeir festa hann þar sem hættulegt geti verið að labba af stað í blindni. „Samkvæmt mínum heimildum er símasamband á þeim stað þar sem mennirnir festu bílinn sinn, því samkvæmt upplýsingum frá Neyðarlínunni hringdu mennirnir eftir aðstoð úr bílnum,“segir Frímann.  

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert