Háskaleikur að hækka skatta

Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ koma …
Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri SA og Gylfi Arnbjörnsson forseti ASÍ koma af fundi ráðherra í vikunni. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er hreinn háskaleikur að ætla að hækka skatta ofan í samdrátt. Það verður með öllum ráðum að hindra það að samdráttur verði á næsta ári. Við verðum að komast í hagvöxt,“sagði Vilhjálmur Egilsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins á aðalfundi Samtaka fiskvinnslustöðva í dag.

Vilhjálmur rakti aðdraganda stöðugleikasáttmálans og markmið samningsaðila um stöðuna í efnahagsmálum í lok ársins. Ekki væri við það unað að verðbólga væri hærri hér en í samkeppnislöndunum og ná verði gengi krónunnar til baka.

„Ef gengið verður svona lágt áfram þá eltir verðlagið gengið, og launin hækka í kjölfarið,“ sagði Vilhjálmur. Meginmarkmið væri að ná gengi krónunnar til baka í jafnvægisgengi. Þá væri engin skýring á því hvað vextirnir héldust háir.

Fram kom í máli hans að samningar hjá hinu opinbera hafi lent í hnút. Komið hafi í ljós við útfærslu samninganna að í stað þess að sjónir beindust að þeim lægst launuðu, „„þá varð slys í samningunum við BSRB sem gengur ekki að koma heim og saman í samningunum við kennara og BHM og ekki liggur fyrir hvernig úr þessu verður leyst,“ sagði hann.

Hann sagði brýnast á næsta ári að staðið verði við fjárlögin. „Það verður með öllum ráðum að hindra það að samdráttur verði á næsta ári. Við verðum að komast í hagvöxt,“ sagði hann.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert