Á árinu 2008 létust alls 1987 einstaklingar, 1005 konur og 982 karlar. Að sögn Hagstofunnar eru helstu dánarmein þjóðarinnar nú sem fyrr sjúkdómar í blóðrásarkerfi og þá aðallega hjarta- og heilaæðasjúkdómar.
Hagstofan segir, að ekki hafi orðið teljandi breytingar varðandi dánartíðni eftir helstu flokkum dánarmeina frá fyrra ári. Á árinu 2008 létust 706 af sjúkdómum í blóðrásarkerfi, þar af 375 úr blóðþurrðarhjartasjúkdómum, 154 konur og 221 karl. Alls létust 147 úr heilaæðasjúkdómum, 85 konur og 62 karlar.
Krabbamein eru næst stærsti flokkur dánarmeina. Á árinu 2008 létust 559 af völdum illkynja æxla eða krabbameina, 282 konur og 277 karlar. Af þeim létust 134 úr lungnakrabbameini, 72 konur og 62 karlar. Þá létust 54 vegna illkynja æxlis í eitil- og blóðmyndandi vef, 23 konur og 31 karl. Auk þess létust 46 konur úr illkynja æxli í brjósti og 54 karlar úr illkynja æxli í blöðruhálskirtli. Aðrar tegundir illkynja æxla voru fátíðari.
Þriðji stærsti flokkur dánarmeina eru sjúkdómar í öndunarfærum en úr þeim dóu árið 2008 184 einstaklingar, þar af 80 einstaklingar úr langvinnum neðri öndunarfærasjúkdómum, 39 konur og 41 karl.
Dauðsföll vegna ytri orsaka er fjórði stærsti flokkurinn. Á árinu 2008 létust 125 af völdum ytri orsaka, 47 konur og 78 karlar. Af þeim voru dauðsföll sem tengdust óhöppum almennt voru alls 63 og í þeim hópi voru 22 konur og 41 karl. Alls létust 16 manns í umferðarslysum. Sjálfsvíg voru 38 á árinu og féllu 11 konur og 27 karlar fyrir eigin hendi. Það er svipuð tíðni og undanfarin ár.
Árið 2008 var skráð 131 ótímabært dauðsfall á Íslandi. Ótímabær dauðsföll eru andlát vegna tiltekinna dánarorsaka sem hefði mátt komast hjá með viðeigandi meðferð eða forvörnum.