Þeir Davíð Oddsson og Haraldur Johannessen, nýir ritstjórar Morgunblaðsins, komu til starfa í Morgunblaðshúsinu um klukkan 9:30 í morgun. Davíð sagði að gaman væri að vera kominn á fornar slóðir en hann starfaði um tíma hjá Morgunblaðinu á námsárum sínum.
Davíð sagði við mbl.is, þegar hann var spurður um gagnrýnisraddir vegna ráðningar hans sem ritstjóra, að gott væri að slíkar raddir séu til. „Blað gengur út á að koma gagnrýnisröddum að svo allir geti komist að eigin niðurstöðum þegar öll sjónarmið hafa fengið framgang," sagði Davíð.
Um þær fullyrðingar, að fyrri störf Davíðs muni varpa rýrð á trúverðugleika Morgunblaðsins, sagði hann að oftast væri það svo, ef menn færu vel með sitt, að það sem þeir hefðu í farangri sínum, sé frekar til þess fallið að menn noti það hinu nýja starfi sínu til framdráttar.
„Ég býst við að það sé það sem fyrir þeim sem að ráðningunni standa, vaki, að menn notfæri sér þann forða sem menn hafa aflað sér á langri vegferð og ég hlakka til þess að moða úr því," sagði Davíð Oddsson.