Nýr meirihluti á Álftanesi

Frá Álftanesi.
Frá Álftanesi. mbl.is/Árni Torfason

Nýr meirihluti hefur verið myndaður í bæjarstjórn Álftaness. Þrír bæjarfulltrúar D-lista og Margrét Jónsdóttir, sem sagði sig frá Á-listanum, mynda meirihlutann.

Guðmundur H. Gunnarsson, oddviti D-lista og bæjarfulltrúi, staðfesti að náðst hafi samkomulag um nýjan meirihluta í lok dags í gær. Hann sagði að ákveðið hafi verið í vikunni að halda bæjarstjórnarfund á þriðjudaginn kemur.

„Það má segja að þá hafi myndast pressa á hvort við næðum lendingu. Þau sem hafa staðið í eldlínunni þar eru Kristinn Guðlaugsson, forseti bæjarstjórnar, og Margrét Jónsdóttir, formaður bæjarráðs. Þarna er um að ræða þrjá fulltrúa af D-lista Sjálfstæðisfélagsins og Margréti Jónsdóttur, sem sagði sig frá Á-listanum í lok júlí,“ sagði Guðmundur.

Hann sagði að niðurstaða hafi náðst í lok gærdagsins. Í dag voru svo hnýttir ýmsir lausir endar og verður því starfi haldið áfram fram að bæjarstjórnarfundinum á þriðjudaginn kemur. 

Guðmundur kvaðst eiga von á að Pálmi Másson, starfandi bæjarstjóri frá 9. september s.l., gegni áfram í því starfi til loka kjörtímabilsins. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert