Vandasamt slökkvistarf

00:00
00:00

Slökkvi­starfið í Höfða var vanda­samt, að sögn Jóns Viðars Matth­ías­son­ar, slökkviliðsstjóra Slökkviliðs höfuðborg­ar­svæðis­ins. Hann sagði að sam­tím­is hafi verið unnið að slökkvi­starfi og verðmæta­björg­un.

Slökkviliðið fékk til­kynn­ingu um eld­inn kl. 17.40 og var búið að slökkva eld­inn um klukku­stund síðar. Þegar rætt var við Jón Viðar laust eft­ir kl. 19.00 stóð verðmæta­björg­un enn yfir. 

„Það var tölu­vert vatn sem fór þarna inn, en þó ótrú­lega lítið miðað við það slökkvistarf sem var í gangi. Verðmæt­in í hús­inu sjálfu eru gíf­ur­lega mik­il en verðmæti þess sem var inni í hús­inu voru ekki minni,“ sagði Jón Viðar.

Hann sagði að slökkvi­starfið og verðmæta­björg­un­in hafi farið fram sam­tím­is. „Borg­ar­stjór­inn, for­seti borg­ar­stjórn­ar og kjörn­ir full­trú­ar ásamt starfs­mönn­um borg­ar­inn­ar unnu öt­ul­lega með lög­regl­unni og slökkviliðsmönn­um að því að koma þess­um verðmæt­um út. Það lögðust all­ir á eitt.“

Jón Viðar sagði að þeir sem þekktu best til í Höfða hafi veitt sér­fræðiþekk­ingu um hverju ætti að bjarga fyrst og hverju mætti bjarga síðar. Húsið var tæmt af hús­gögn­um, mál­verk­um og öðrum list­mun­um.

Jón Viðar treysti sér ekki til að meta skemmd­irn­ar á hús­inu á þess­ari stundu. Hann sagði að bruna­skemmd­irn­ar séu staðbundn­ar í þaki og milli­lofti á háa­lofti. Vatns­skemmd­ir urðu á öðrum stöðum í hús­inu.

Eld­ur­inn var á milli­lofti á háa­loft­inu. Húsið er kjall­ari, hæð og ris. Fyr­ir ofan risið er háa­loft. Eld­ur­inn var í milli­lofti sem skil­ur á milli ris­hæðar­inn­ar og háa­lofts­ins. 

„Tveir reykkafar­ar skriðu inn á háa­loftið til að taka á móti eld­in­um þar. Það var ansi heitt, en menn þurftu að passa að eld­ur­inn færi ekki í allt þakið.

Þetta var mjög erfitt verk­efni en líka flókið. Það var bæði verið að slökkva eld­inn og bjarga verðmæt­um á sama tíma,“ sagði Jón Viðar. Hann sagði ekki hægt að svo stöddu að kveða upp úr um hvað olli eld­in­um. Jón Viðar taldi að það kæmi í ljós síðar í kvöld eða á morg­un.

Slökkviliðsmenn á vakt komu ör­fá­um mín­út­um eft­ir að út­kallið barst. Síðan var hringd svo­nefnd „stór út­hring­ing“, sem þýðir að all­ir slökkviliðsmenn á frívakt eru kallaðir út. Tæki komu af öll­um slökkvistöðvum höfuðborg­ar­svæðis­ins, þar á meðal sér­stak­ur verðmæta­björg­un­ar­gám­ur.

Jón Viðar taldi að 80-100 slökkviliðsmenn hafi verið á staðnum. Auk slökkviliðs og lög­reglu lögðu marg­ir borg­ar­ar lið við björg­un­ar­starfið. Jón Viðar sagði ljóst að þarna hafi vel á annað hundrað manns unnið við slökkvi- og björg­un­ar­störf.

Jón Viðar Matthíasson slökkviliðsstjóri SHS.
Jón Viðar Matth­ías­son slökkviliðsstjóri SHS. mbl.is
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka